Risalöndun hjá Málmey SK,2015
Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem hafa fylgt með botnvörpulistanum hérna á Aflafrettir.is að ísfiskstogarinn Málmey SK hefur verið að fiska æði vel núna í haust og sérstaklega núna í nóvember.
Risalöndun
Togarinn hefur landað fjórum sinnum og kominn með yfir 800 tonn sem er feiknarlega gott. Síðasta löndun togarans var risastór eða 233 tonn miðað við óslægt og er þetta langmesti afli sem að togarinn hefur komið með að landi síðan honum var breytt í ísfiskstogara.
Einstök kæling
Það sem gerir Málmey SK sérstaka umfram aðra ísfiskstogara á íslandi og jafnvel í heiminum er að enginn ís er notaður við kælingu á fiskinum heldur voru settir svokallaðir kælisniglar í togarann sem voru smíðaðir af 3x stál á Ísafirði og Skaganum á Akranesi.
Ágúst Óðinn Ómarsson skipstjóri var með Málmey SK í þessum risatúr og sagði hann í samtali við Aflafrettir að þeir hefðu verið að veiðum á Halanum og Þverálshorni. Mjög jöfn og góð veiði hafi verið og var miðað við að taka ekki stærri höl, enn slæingin og kælingin rérði við. Stærsta holið var um 10 tonn. Algengur afli var um 4 tonn á togstund.
Ágúst sagði að sniglarnir voru 3 um borð og væri hver um sig 14 metra langir. Eru sniglarnir þannig að í fyrsta hólfi fer blæðing fram, í því næsta er kæld niður í um -1 gráðu og í því þriðja í -3 gráður með saltpækli. Tekur það fiskinn eina klukkustund að fara í gegnum sniglanna. Og nefndi Ágúst sem dæmi að ef 5 tonna hal er tekið og þegar búið er að slægja aflann þá eru fyrstu fiskarnir að koma úr sniglunum og fara þá hásetarnir niður í lest og ganga frá.
Sem dæmi má nefna að á makrílnum þá voru þeir að afkasta 8 tonn af makríl í gegnum sniglanna á klukkustund.
Fiskurinn fer svo allur í lest þar sem honum er raðað í kör og er lestin höfð -1 til -2 gráðu köld og það gerir það að verkum að fiskurinn helst vel kældur allan túrinn. Greinilegt er að sniglarnir eru að afkasta vel.
15 menn eru um borð á Málmey SK og ganga þeir 8 og 8 vaktir. Sem þýðir vinna í 8 klst og frí í 8 klst. Mjög gott kerfi og nefndi Ágúst sem dæmi um að þrátt fyrir þessa veiði þá þurftu menn aldrei að ganga í að vinna frívaktirnar sínar.
Ágúst stýrir Málmey SK á móti Birni Jónssyni skipstjóra og skipta þeir með sér 2 og 2. það er að segja róa 2 túra og 2 í frí.
Er pláss fyrir meira?
Er hægt að koma meiri afla um borð í Málmey SK, Ágúst sagði að þetta væri í það mesta enn lestin tekur 638 470 lítra kör og eru um 320 kíló í kari. Ef að öll þessi 638 kör eru fyllt og miðað við slægt þá eru það um 205 tonn sem reiknast sem um 243 tonn óslægt.
Vildi Ágúst taka það fram að breytingarnar á Málmey SK væru mjög vel heppnaðar.
Málmey SK mynd Bergþór Gunnlaugsson
Ágúst Óðinn Ómarsson skipstjóri
Kælisniglarnir. Mynd Magnús Þór Hafsteinsson